Samræmd Hundasamþykkt
Hér má finna samræmda hundasamþykkt sem sveitarfélög á Íslandi geta byggt á.
Hundasamþykktir og heilbrigðiseftirlitssvæði
Almennt um hundasamþykktir
> Hundasamþykktir eru settar í sveitarfélögum á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sveitarfélög þurfa ekki að setja sér hundasamþykkt og algengt að fámenn sveitarfélög án þéttbýlis sleppi því.
> Sveitarfélög mega setja sér hundasamþykktir sem innihalda atriði sem er ekki fjallað um í öðrum reglugerðum eða gert ítarlegri kröfur en tiltekið er í öðrum reglugerðum en þau atriði þurfa engu að síður að falla undir lög um hollustuhætti. Fjallað er um almenna hollustuhætti, hávaða, ónæði, óhollustu og óþrifnað í lögum og reglugerðum um hollustuhætti enda einskorðast slíkt ekki eingöngu við hunda og hundahald.
> Sveitarfélögum er heimilt að setja gjaldskrá vegna eftirlits vegna ákvæða í hundasamþykktum en þó eingöngu fyrir eftirlit með því sem er umfram það sem tilgreint er í öðrum reglugerðum. Sveitarfélögum er ekki heimilt að innheimta eftirlitsgjöld vegna hjálparskyldu, handsömunar hunda og dýraaðstöðu sveitarfélags enda fellur það undir lög um velferð dýra. Þó er heimilt samkvæmt þeim lögum að innheimta handsömunargjöld.
> Nær öll sveitarfélög hafa sett sér mismunandi og oft ólíkar hundasamþykktir en í engum þeirra er neitt sem flokkast gæti sem sérstaða sveitarfélagsins utan upptalningar á lausagöngusvæðum. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að leggja þetta séríslenska og úrelta kerfi niður og hafa sömu reglur fyrir hundaeigendur um allt land óháð búsetu.
Hundasamþykkt [nafn sveitarfélags]
1.gr. Tilgangur og tenging við önnur lög
◻ Tilgangur hundasamþykktarinnar er að stuðla að því að efla vandað hundahald sem gætir öryggis, ábyrgðar, almenns friðar og reglu í samfélaginu.
◻ Um hundahald gilda einnig ákvæði í öðrum lögum, m.a. lögum um velferð dýra og fjöleignahúsalögum.
2.gr. Skyldur
◻ Umráðamaður hunds skal gæta þess vel, að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifnaði, eða raski ró fólks og dýra. Umráðamaður skal ávallt þrífa upp skít eftir sinn hund.
◻ Gerð er krafa til umráðamanns um þekkingu á hundahaldi og þjálfun ásamt þekkingu á þörfum hundsins og náttúrulega hegðun.
◻ Umráðamanni er skylt að hafa gilda ábyrgðartryggingu vegna hunds vegna þess tjóns sem hundurinn getur valdið þriðja aðila.
◻ Ef ástæða er til að ætla að hundur sé hættulegur eða hafi valdið líkamstjóni, s.s. með biti, skal umráðamaður hunds láti hundinn undirgangast skapgerðamat. Matið skal framkvæmt af sérfróðum aðila, s.s. dýralækni eða öðrum aðila til þess bæran. Leiði skapgerðarmat í ljós að hundur telst hættulegur, getur það skapað grundvöll fyrir því að hundurinn verði aflífaður.
3.gr. Takmarkanir
◻ Hundar skulu aldrei vera lausir innan marka þéttbýlis, nema þjónustuhundar þegar þeir eru að störfum í gæslu umráðamanns. Þó er heimilt er að hafa hunda lausa innan afgirtra lóða og á skilgreindum hundasvæðum, varanlegum eða tímabundnum.
◻ Heimilt er að vera með hunda í taumi á göngustígum, í almenningsgörðum, á hafnarsvæðum, á hesthúsasvæðum og þá ávallt í fylgd umráðamanns eða einstaklings sem ætla má að hafi vald á hundinum.
◻ Við skipulagða reiðstíga heldur umráðamaður hundi að sér og hefur hann helst í taumi.
◻ Ekki er æskilegt að nota útdraganlega tauma á sameiginlegum göngustígum þar sem búast má við umferð hjólreiðafólks.
◻ Utan þéttbýlis er taumskylda á svæðum með viðkvæmt dýralíf, við áninga- og ferðamannastaði, á tjaldsvæðum og á öðrum stöðum þar sem fólk kemur saman. Einnig er taumskylda þar sem haldið er búfé að undanskildum þarfahundum á lögbýlum.
◻ Lausaganga er heimil á auðum svæðum s.s. útmörk utan skipulagðrar íbúðarbyggðar, utan akvega og reiðstíga og utan skipulagðra göngustíga.
◻ Óheimilt er að fara með hunda um varpsvæði fugla á varptíma.
Ákall um heildarlöggjöf um hundahald
Allt of margir opinberir aðilar koma að lögum og reglugerðum um hundahald.
Of mörg grá svæði þar sem opinberir aðilar vísa ábyrgð hver á annan.
Sveitarfélög fá of mikið sjálfsákvörðunarvald yfir hundaeigendum og kjörnir fulltrúar geta tekið geðþóttaákvarðanir um hunda og hundaeigendur án nokkurs samráðs né kynningar.
Of margt er óljóst varðandi réttindi hundaeigenda.
Í dag eru reglur um hundahald fyrst og fremst settar fyrir hundaeigendur sem fara ekki eftir reglum um hundahald.
97-99% hundaeigenda eru ábyrgir hundaeigendur.
Veftré