Select Page

Lög og reglugerðir

Hér má finna úrdrátt úr greinum laga og reglugerða sem tengjast hundahaldi á Íslandi. Hægt er að smella á millifyrirsagnir til að fá upp heildartexta.
[Uppfært í september 2024]

Lög um velferð dýra nr. 55/2013

=

22. gr. Merkingar og skráningarskylda.

> Skylt er að einstaklingsmerkja kanínur, ketti, hunda, geitur, hross, nautgripi, sauðfé og svín.

> Matvælastofnun ber ábyrgð á að starfræktir séu gagnagrunnar um skráningu einstaklingsmerkja skv. 1. mgr. Stofnuninni er heimilt að fela öðrum starfrækslu gagnagrunns með samningi.

=

24. gr. Handsömun dýra.

> Ef dýr strjúka eða sleppa úr haldi skulu umráðamenn þeirra þegar gera ráðstafanir til að handsama þau. Viðkomandi sveitarfélagi er skylt að taka slík dýr í vörslu sína, lesa af einstaklingsmerkjum og gera þegar ráðstafanir til að hafa uppi á umráðamanni þeirra. Sveitarfélögum er skylt að hafa aðstöðu til að halda slík dýr. Sveitarfélagi er heimilt að innheimta áfallinn kostnað úr hendi umráðamanns samkvæmt gjaldskrá. Ef umráðamaður vitjar ekki dýrsins innan viku frá því að honum var tilkynnt um handsömun þess eða ef umráðamaður finnst ekki innan tveggja vikna er sveitarfélaginu heimilt að ráðstafa dýrinu eins og um hálfvillt dýr sé að ræða. Sveitarfélag telst umráðamaður dýra á meðan þau eru í vörslu þess.

> Eftir tvo sólarhringa frá handsömun er sveitarfélagi heimilt að ráðstafa hálfvilltu dýri til nýs eiganda, selja það gegn áföllnum kostnaði eða aflífa án bóta.

> Sveitarfélagi er heimilt að fela öðrum að framkvæma þær skyldur sem tilgreindar eru í 1. og 2. mgr. með sérstökum samningi.

Reglugerð um velferð gæludýra nr. 80/2016

=

11. gr. Merking og skráning.

> Umráðamanni hunda, katta og kanína er skylt að auðkenna öll dýr innan 12 vikna aldurs með einstaklingsörmerki skv. alþjóðlegum ISO-staðli. Samtímis skal örmerkjanúmerið skráð í miðlægan gagnagrunn sem er samþykktur eða rekinn af Matvælastofnun. Umráðamanni ber að tryggja að upplýsingarnar séu réttar á hverjum tíma. Umráðamaður ber allan kostnað af merkingu og skráningu dýra sinna.

> Hundar og kettir sem fara út skulu frá fjögurra mánaða aldri bera hálsól með merki þar sem fram koma eigendaupplýsingar svo sem nafn og símanúmer umráðamanns.

=

12. gr. Handsömun

> Strax og umráðamaður dýrs verður þess var að gæludýr sleppur úr haldi skal hann gera ráðstafanir til að finna dýrið og handsama það.

> Við handsömun hunda er leyfilegt að nota föngunarbúr, háfa og þar til gerðar föngunarstangir, en einungis ef sá sem fangar hefur hlotið viðurkennda þjálfun að mati Matvælastofnunar, við notkun slíkra stanga.

> Vitja skal búranna á minnst tólf klst. fresti. Ef ástæða er til að ætla að hitastig utandyra fari undir 5°C eða yfir 20°C skal vitja búranna á minnst þriggja klst. fresti.

> Ávallt skal, eins fljótt og auðið er, leitað eftir örmerki dýrs sem fangað hefur verið. Ef ekki næst í umráðamann eða dýrið er ómerkt skal dýr án tafar flutt í dýraaðstöðu sveitarfélags.

=

13. gr. Flutningar

> Dvöl hunda, katta og kanína í farartæki á ferð skal ekki vera lengri en sex klukkutímar í senn án hvíldar, en sé ferðatíminn lengri skal veita þeim aðgang að fersku vatni, tækifæri til hreyfingar og að sinna nauðsynlegum þörfum sínum. Fóðrun skal vera minnst á 24 klst. fresti, en oftar ef um ungviði eða dýr með aukna fóðurþörf er að ræða.

> Óheimilt er að flytja gæludýr í farangursrými bifreiðar nema hægt sé að fylgjast með líðan þess úr farþegarými meðan á ferð stendur.

> Á ferðum með skipum eða bílaferjum sem vara lengur en sex klst. ber að geyma dýrið í búri þar sem umráðamaður getur fylgst með því. Búrið þarf að uppfylla skilyrði sem fram koma í 3. mgr. Ef ferð mun vara lengur en 24 klst. þarf flutningsaðili að tryggja að viðbragðsáætlun sé til staðar ef upp koma alvarleg veikindi eða slys. Á styttri ferðum á sjó skal tryggja öryggi gæludýrs þannig að það geti ekki fallið útbyrðis og sé varið fyrir kulda og bleytu.

=

18. gr. Aðbúnaður og umönnun hunda.

> Umráðamaður hunds skal stuðla að réttri meðferð í samræmi við eðli hans, eiginleika og aldur og ofgera honum ekki á neinn hátt. Einnig þarf að sinna umhverfisþjálfun og félagslegri þörf hans við manninn. Sérhver hundur skal hafa tækifæri til að komast út daglega til að geta sinnt eðlilegum þörfum sínum og fá þá hreyfingu sem er nauðsynleg tegundinni.

> Aðbúnaður og aðstaða hunds skal hæfa stærð hans, tegund og aldri með tilliti til hvíldar og hreyfingar. Sé hundur hafður í búri eða stíu skal gætt að lágmarkskröfum skv. 1. lið viðauka II.

> Tryggja skal hundi aðgengilegt svefn- og hvíldarpláss sem er laust við raka, dragsúg og hávaða. Undirlag skal vera þurrt, hreint og mjúkt. Rýmið skal taka mið af fjölda hunda og allir skulu geta legið í legurými samtímis í náttúrulegri stöðu, t.d. flatri hliðarlegu.

> Ekki skal skilja hund eftir einan og eftirlitslausan að jafnaði lengur en átta klst. í senn nema í undantekningartilvikum. Aðeins er heimilt að tjóðra hund ef nauðsyn ber til og þá einungis undir eftirliti í skamman tíma og þannig að hundinum stafi ekki hætta af.

> Fóðra skal hund minnst einu sinni á dag. Ungviði, hunda með aukna orkuþörf og mjólkandi tíkur skal fóðra oftar. Tryggja skal að hundur sé í eðlilegum holdum miðað við tegundina skv. A-lið viðauka III.

=

19. gr. Pörun og undaneldi.

> Óheimilt er að nota tík til undaneldis nema hún sé heilbrigð og hafi náð til þess líkamlegum þroska, að jafnaði við annað lóðatímabil og ekki yngri en 18 mánaða. Tryggja skal að tík fái nægjanlega hvíld milli gota, að jafnaði 1-2 lóðatímabil. Tík sem hefur tvisvar gengist undir keisaraskurð má ekki nota áfram til undaneldis.

> Óheimilt er að nota hund í ræktun sem þekkt er að haldinn sé arfgengum sjúkdómi, með alvarlega skap- eða hegðunargalla eða aðra eiginleika sem haft geta áhrif á heilbrigði afkvæma, skert eðlilegar lífslíkur og/eða lífsgæði þeirra.

> Óheimilt er að þvinga fram pörun þar sem tíkin sýnir augljós merki um óþægindi eða hræðslu.

=

20. gr. Hvolpafullar eða mjólkandi tíkur og ungviði.

> Hvolpafullri tík skal útbúa viðhlítandi hvíldarpláss í rólegu umhverfi sem hún getur lagað sig að tímanlega fyrir got. Skylt er að fylgjast náið með sérhverri hvolpafullri tík sem komin er að goti. Þá skal hafa reglulegt eftirlit yfir daginn með nýgotinni tík fyrstu tvær vikurnar eftir got og skal hún ásamt hvolpum sínum njóta næðis þann tíma.

> Mjólkandi tíkur skulu hafa aðgang að legurými sem er óaðgengilegt fyrir hvolpana. Í undantekningartilfellum og þá aðeins vegna óviðráðanlegra aðstæðna, er heimilt að aðskilja hvolp frá tík áður en hann hefur náð átta vikna aldri. Umráðamaður skal sinna hvolpi daglega til að venja hann við samskipti við manninn og fjölbreytt umhverfi. Hvolpur yngri en 16 vikna skal ekki skilinn eftir einn og án eftirlits lengur en þrjár klst. í senn.

=

21. gr. Flutningur og aðbúnaður hunda í flutningstæki.

> Óheimilt er að geyma hund í flutningsbúri eða í flutningstæki, nema í eftirfarandi tilvikum:

  1. Á hundasýningum, hundakeppnum og hundaprófum, vinnu til gagns og við þjálfun fyrir framangreind tilvik. Útsýni úr búri skal hindrað frá tveimur hliðum. Hundur skal viðraður minnst á þriggja klst. fresti yfir daginn. Á keppnis- og þjálfunarstöðum eða á ferðalögum er heimilt að geyma hund í búri eða lausan í flutningstæki yfir nótt ef hitastig leyfir skv. 2. mgr. en að hámarki í átta klst.
  2. Við flutning milli staða skal dvöl hunds í búri í kyrrstæðu ökutæki ekki vara lengur en þrjár klst. nema ef um er að ræða tilvik skv. 1. tl. Að öðru leyti gilda skilyrði skv. 13. gr.
  3. Tímabundið þegar sérstakar aðstæður krefjast þess, en þó aldrei lengur en þrjár klst.

> Hund skal ekki skilja eftir í eða á flutningstæki án eftirlits ef hitastig getur farið yfir +25ºC eða undir -5ºC. Aldrei má skilja hund einan eftir í flutningstæki ef hann sýnir merki um vanlíðan.

> Óheimilt er að flytja hund á opnum palli flutningstækis á þjóðvegum og í þéttbýli, nema þá stutta vegalengd. Við flutning skal hundur vera í búri með tryggum festingum eða hundurinn bundinn með bringubeisli sem er tryggilega fest í ökutæki. Hundategundir skv. 1. mgr. 23. gr. er heimilt að flytja lengri vegalengd á palli ökutækis ef þeir eru undir reglulegu eftirliti og hafðir í búrum sem veita gott skjól. Búrin skulu uppfylla almennar kröfur um flutningsbúr skv. 13. gr.

Lög um fjöleignarhús nr. 26/1994

=

33. gr. e. Hundar og kettir. Samþykki aukins meiri hluta.

> Hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi er háð samþykki 2/ 3 hluta eigenda sem hafa sameiginlegan inngang eða stigagang.

> Þegar svo háttar getur húsfélag eða húsfélagsdeild með samþykki 2/ 3 hluta eigenda veitt annaðhvort almennt leyfi til hunda- og/eða kattahalds eða einstökum eigendum slíkt leyfi vegna tiltekins dýrs. Getur húsfélagið bundið slíkt leyfi skilyrðum.

> Eigandi skal afla samþykkis annarra eigenda og fá leyfi fyrir dýrinu samkvæmt reglum viðkomandi sveitarfélags, þar sem það á við, áður en dýrið kemur í húsið. Skal eigandi láta húsfélagi í té ljósrit af leyfinu.

> Gæta skal jafnræðis við veitingu samþykkis skv. 1. mgr. og er óheimilt að mismuna eigendum sem eiga jafnan rétt í þessu efni.

> Samþykkið er óafturkallanlegt að óbreyttum forsendum en þinglýsingar er þörf til að það haldi gagnvart síðari eigendum í góðri trú.

> Liggi fyrir samþykki um hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi í samræmi við grein þessa en eigandi eða einhver í hans fjölskyldu er með ofnæmi fyrir hundum eða köttum á svo háu stigi að sambýlið við leiðsögu- eða hjálparhund sé óbærilegt og læknisfræðileg gögn staðfesta það skal kærunefnd húsamála leita lausna að fengnu áliti ofnæmislækna og sérfræðinga á öðrum sviðum ef því er að skipta.

> Skemmri heimsóknir hunda og katta eru heimilar ef enginn mótmælir en vistun eða dvöl þeirra yfir nótt er óheimil nema fyrir liggi leyfi skv. 1. og 2. mgr.

> Þessar takmarkanir gilda ekki þegar um hjálparhunda er að ræða, sbr. [33. gr. h].

=

33. gr. f. Samþykkis ekki þörf.

> Þegar hvorki er um sameiginlegan inngang né stigagang að ræða, sbr. [33. gr. e], er samþykkis annarra eigenda ekki þörf fyrir hunda- og kattahaldi í húsinu. Á það til dæmis við þegar sérinngangur er í íbúð á jarðhæð eða frá sameiginlegum útitröppum. Gildir það þótt lóð sé sameiginleg og annað sameiginlegt rými sé í húsinu. Þegar sameiginlegur stigagangur er utanáliggjandi og gengið er inn í íbúðir af svölum þarf samþykki þeirra eigenda sem hann tilheyrir.

> Áður en dýr kemur í hús skal eigandi tilkynna húsfélaginu skriflega um dýrahaldið og afhenda því ljósrit af leyfi frá viðkomandi sveitarfélagi þar sem við á.

> Húsfélagið getur með reglum og ákvörðunum á húsfundi, með einföldum meiri hluta, sett hunda- og kattahaldi í slíku húsi skorður, enda séu þær eðlilegar, málefnalegar og á jafnræði reistar.

> Húsfélagið getur með sama hætti lagt bann við dýrahaldi ef það veldur öðrum íbúum verulegum ama, ónæði og truflunum og eigandi dýrsins neitar að gera bót þar á.

=

33. gr. g. Sameiginlegar reglur.

> Með öllu er óheimilt að halda skráningar- og leyfisskyld dýr í fjöleignarhúsum, sbr. [33. gr. e] og [33. gr. f], nema leyfi sveitarfélags fyrir dýrinu, þar sem við á, liggi fyrir.

> Hundar og kettir mega ekki vera í sameign eða á sameiginlegri lóð nema þegar verið er að færa dýrin að og frá séreign. Skulu þau ávallt vera í taumi og í umsjá manns sem hefur fulla stjórn á þeim. Lausaganga hunda í sameign eða á sameiginlegri lóð telst alvarlegt brot, sbr. 4. mgr.

> Það er skilyrði fyrir hunda- og kattahaldi í fjöleignarhúsum að búið sé vel að dýrunum og vel sé hugsað um þau. Jafnframt skal þess gætt í hvívetna að þau valdi öðrum íbúum hússins ekki ama, ónæði eða óþægindum.

> Nú brýtur eigandi dýrs verulega eða ítrekað gegn skyldum sínum og áminningar hafa ekki áhrif, og getur húsfélag þá með ákvörðun skv. D-lið 1. mgr. 41. gr. afturkallað samþykki skv. [33. gr. e] og bannað dýrahald skv. [33. gr. f] og gert honum að fjarlægja dýrið úr húsinu. Ef allt um þrýtur geta gróf eða ítrekuð brot leitt til þess að húsfélagið beiti úrræðum 55. gr. gagnvart eiganda dýrsins.

=

33. gr. h. Leiðsögu- og hjálparhundar.

> Sé eigandi, eða annar varanlegur íbúi í hans skjóli, blindur eða fatlaður á annan máta þannig að hann þurfi á sérþjálfuðum leiðsögu- eða hjálparhundi að halda er honum heimilt að halda slíkan hund óháð fyrirmælum og takmörkunum laga þessara.

> Slíkur hundur skal vera sérþjálfaður og skráður sem leiðsögu- eða hjálparhundur og fyrir skulu liggja vottorð sérfræðinga um þörf hans og þjálfun. Skulu gögn um það afhent húsfélaginu ásamt fróðleik og leiðbeiningum um slíka hunda, þjálfun þeirra og hvernig beri að umgangast þá.

> Stjórn húsfélagsins skal láta þinglýsa yfirlýsingu um að leiðsögu- eða hjálparhundur sé í húsinu. Einnig skal stjórnin láta þess getið í yfirlýsingu húsfélags í tengslum við sölu íbúða.

> Sé eigandi eða einhver í hans fjölskyldu með ofnæmi fyrir hundum á svo háu stigi að sambýlið við leiðsögu- eða hjálparhund sé óbærilegt og læknisfræðileg gögn staðfesta það skal kærunefnd húsamála leita lausna að fengnu áliti ofnæmislækna, leiðsögu- eða hjálparhundaþjálfara og sérfræðinga á öðrum sviðum ef því er að skipta.

Reglugerð um bann við aðgerðum á hundum og köttum
sem framkvæmdar eru án læknisfræðilegra ástæðna nr. 526/2001

=

1. gr.

> Eftirtaldar aðgerðir á hundum og köttum sem ekki eru gerðar í læknisfræðilegum tilgangi heldur til að breyta útliti þeirra eða eiginleikum eru bannaðar:
a. Eyrnastífing hunda.
b. Skottstýfing hunda.
c. Brottnám raddbanda hunda og katta.
d. Brottnám á klóm katta.
e. Brottnám á sporum hunda.
f. Tannúrdráttur hjá hvolpum og kettlingum.

=

2. gr.

> Reynist nauðsynlegt að gera aðgerðir á skotti hunds, í læknisfræðilegum tilgangi, skal aðeins fjarlægja þann hluta skottsins sem nauðsynlegt er til að bati náist.

Lög um innflutning dýra nr. 54/1990

=

4. gr. a.

> Heimilt er að krefjast skapgerðarmats á hundum sem sótt er um innflutningsleyfi fyrir, einnig er heimilt að krefjast skapgerðarmats á hundum sem sótt er um leyfi til að flytja inn erfðaefni úr. Ekki skal veita undanþágu til innflutnings á hundum, blendingum af úlfum og hundum, eða öðrum gæludýrum sem hætta getur stafað af.

Reglugerð um innflutning hunda og katta nr. 200/2020

=

3. gr. Innflutningsleyfi

> Innflutningur á hundum og köttum er óheimill nema að fengnu leyfi Matvælastofnunar og uppfylltum skilyrðum reglugerðar þessarar.

> Með umsókn um innflutningsleyfi staðfestir umsækjandi að hlíta í hvívetna því regluverki sem gildir um innflutning og einangrun auk fyrirmæla sem Matvælastofnun setur sem skilyrði til innflutnings og einangrunar.

> Innflutningsleyfi gildir í allt að eitt ár frá útgáfudegi.

=

4. gr. Viðurkennd útflutningslönd

> Eingöngu má flytja hunda og ketti til Íslands frá viðurkenndu útflutningslandi.

> Viðurkennd útflutningslönd eru flokkuð í tvo flokka m.t.t. hundaæðis, sbr. viðauka I. Í fyrsta flokki eru lönd án hundaæðis. Í öðrum flokki eru lönd þar sem hundaæði finnst ekki eða er haldið vel í skefjum. Ef land sem innflytjandi hyggst flytja inn hund eða kött frá er ekki á listanum, getur hann sótt um sérstakt mat Matvælastofnunar á því hvort landið geti talist viðurkennt útflutningsland. Við mat á því hvort land geti talist viðurkennt útflutningsland skal Matvælastofnun miða við sjúkdómastöðu hundaæðis og hvort staða sé sambærileg við lönd sem tilgreind eru í viðauka I.

> Hundar og kettir sem fyrirhugað er að flytja til landsins skulu hafa dvalið í viðurkenndu útflutningslandi síðustu sex mánuði fyrir innflutning eða frá fæðingu, eða öðru útflutningslandi sem er í sama flokki m.t.t. hundaæðis.

> Matvælastofnun getur þó heimilað innflutning á hundi eða ketti frá landi sem ekki telst til viðurkennds útflutningslands, sbr. viðauka I, ef um er að ræða búferlaflutninga og dýrið hefur verið í eigu og umsjá innflytjanda í a.m.k. sex mánuði fyrir innflutning. Þessu til staðfestingar skal innflytjandi leggja fram gögn sem Matvælastofnun metur gild. Hundur eða köttur sem fluttur er til Íslands á þessum forsendum skal uppfylla heilbrigðisskilyrði samkvæmt flokki 2, sbr. viðauka I.

=

8. gr. Innflutningsstaður

>Einungis er heimilt að flytja inn hunda og ketti til Íslands um innflutningsstað eins og hann er skilgreindur í reglugerð þessari.

> Innflutningur á hundum og köttum með skipum er óheimill.

=

11. gr. Einangrun

> Hunda og ketti sem heimilað hefur verið að flytja til landsins og uppfylla skilyrði reglugerðar þessarar, skal við komuna til landsins flytja rakleiðis úr móttökustöð hunda og katta í einangrunarstöð þar sem dýrin skulu dvelja að lágmarki í 14 sólarhringa. Innflytjandi skal sjálfur útvega rými fyrir dýrið í einangrunarstöð.

> Innflytjendur vottaðra hjálparhunda geta sótt um leyfi til þess að einangrun þeirra fari fram í heimaeinangrun fyrir hjálparhunda undir eftirliti Matvælastofnunar og skv. skilyrðum þar að lútandi, sbr. reglugerð um einangrun og einangrunarstöðvar fyrir gæludýr. Eingöngu hjálparhundar sem uppfylla öll skilyrði innflutnings geta fengið slíka heimild. Umsókn um einangrun í heimaeinangrun fyrir hjálparhunda skal berast Matvælastofnun að minnsta kosti einum mánuði fyrir innflutning.

=

14. gr. Óheimill innflutningur

>Óheimilt er að flytja til landsins:

a. Hvolpafullar tíkur.
b. Kettlingafullar læður.
c. Tíkur með hvolpa á spena.
d. Læður með kettlinga á spena.
e. Dýr sem hafa slasast eða undirgengist aðgerðir fyrir innflutning, allt fram að innflutningsdegi, og/eða þarfnast aukins eftirlits eða eftirmeðferðar af nokkru tagi, nema með sérstöku leyfi Matvælastofnunar.
f. Hunda af eftirfarandi tegundum, svo og blendinga af þeim í a.m.k. fimm ættliði:
  1. Pit Bull Terrier/American Staffordshire Terrier/Staffordshire Bull Terrier/American Bulldog.
  2. Fila Brasileiro.
  3. Toso Inu.
  4. Dogo Argentino.
  5. Cane Corso.
  6. Presa Canario.
  7. Boerboel.
  8. Hunda sem hafa sambærilegan uppruna, líkamsbyggingu og/eða geðslag og tegundir í 1.-7. tl. samkvæmt rökstuddri ákvörðun Matvælastofnunar hverju sinni.
  9. Hunda sem eru taldir hættulegir að mati Matvælastofnunar hverju sinni. Stofnunin skal rökstyðja ákvörðun sína og taka mið af fyrirliggjandi upplýsingum um viðkomandi hundategund, uppruna hennar og ræktunarmarkið, líkamsbyggingu og geðslag.
g. Blendinga af úlfum og hundum í a.m.k. 10 ættliði.

> Komi í ljós við komu dýrs til landsins að ákvæði a-g-lið eigi við um dýr sem komið er á innflutningsstað skal fara eftir ákvæðum 10. gr. þessarar reglugerðar um brottfall leyfis.

> Ef ástæða er til að ætla að hundur tilheyri tegund eða blendingi, sbr. liði f eða g, getur Matvælastofnun farið fram á DNA-greiningu, ættbók eða önnur gögn til staðfestingar á hundategund.

Lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998

=

59. gr. Samþykktir

> Sveitarfélög geta sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í þeim, enda falli þau undir lögin. Heimilt er auk annars að setja í slíkar samþykktir ákvæði um:
    1. bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds,
    2. meðferð úrgangs og skolps,
    3. gjaldtöku fyrir leyfi, leigu eða veitta þjónustu,
    4. ábyrgðartryggingar.

> Heilbrigðisnefnd semur drög að samþykktum og breytingum á þeim og leggur fyrir viðkomandi sveitarstjórn sem afgreiðir þau í formi samþykktar til ráðherra. Sé um að ræða nýmæli í samþykktum sveitarfélaga skal ráðherra leita umsagnar [Umhverfisstofnunar] áður en hann staðfestir samþykktina.

> Heimilt er sveitarfélögum að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda skv. 1. mgr. … . Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Gjöld skulu tryggð með lögveðsrétti í viðkomandi fasteign tvö ár eftir gjalddaga þegar leyfi, leiga eða þjónusta er tengd notkun fasteignar. Sveitarfélag skal láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld má innheimta með fjárnámi.

Reglugerð um hollustuhætti nr. 903/2024

=

IX. Kafli, hundar, kettir og önnur dýr

=

42. gr. Almennt.

  > Um gæludýrahald skal fara eftir samþykkt viðkomandi sveitarfélags. Setji sveitarfélag sér samþykkt um gæludýrahald skal í henni kveða á um ábyrgðartryggingar. Um hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi fer samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús, sbr. og ákvæði samþykkta einstakra sveitarfélaga.

> Gæludýrahald skal ekki valda óþrifnaði, hávaða, ónæði eða smithættu fyrir íbúa.

> Fyrirbyggja skal sýkingar hjá mönnum af völdum bandorma og spóluorma í hundum og spóluorma í köttum.

> Varðandi ábyrgð og skyldur umráðamanna hunda og katta til að tryggja heilbrigði og velferð þeirra gilda ákvæði laga um velferð dýra og reglugerðar um velferð gæludýra.

> Búfé má einungis hafa í húsum sem til þess eru ætluð.

=

43. gr. Aðgangur dýra að tilteknum svæðum, húsnæði og almenningssamgöngutækjum.

> Óheimilt er að hleypa hundum, köttum eða öðrum dýrum í eftirtalin rými eða svæði, nema að um það sé sérstaklega getið í þessari grein eða að fengnu leyfi heilbrigðisnefndar, sbr. 4. mgr.:

  1. Sjúkrastofnanir, svo sem lækna- og tannlæknastofur, sjúkrahús, aðgerðastofur og húsnæði sjúkraþjálfara.
  2. Skóla og leikvelli.
  3. Fangelsi.
  4. Íþróttastöðvar, íþróttahús, sund- og baðstaði og heilsuræktarstöðvar.
  5. Snyrtistofur, nuddstofur, sólbaðsstofur og húðflúrsstofur.
  6. Samkomuhús, svo sem kirkjur, leikhús, tónleikasali, söfn og kvikmyndahús.
  7. Gististaði í flokki II, III og IV samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
  8. Mötuneyti.
  9. Sumarbúðir fyrir börn.
  10. Almenningssamgöngutæki.

> Heimilt er þó að fara með dýr inn á staði sem eru sérstaklega ætlaðir dýrum, svo sem snyrtistofur og sjúkrastofnanir fyrir dýr.

> Heimilt er fólki með fötlun að hafa með sér hjálparhunda á gististaði, veitingastaði, í skóla, á snyrtistofur og hársnyrtistofur, heilbrigðisstofnanir, íþrótta- og baðstaði, fangelsi, verslunarmiðstöðvar, samkomuhús og í almenningssamgöngutæki, enda sé viðkomandi einstaklingi ótvíræð nauðsyn að hjálparhundi. Hundurinn skal merktur sem hjálparhundur.

> Heimilt er eigendum eða rekstraraðilum veitingastaða, svo sem matsölustaða og kaffihúsa, að leyfa að komið sé með hunda og ketti inn í veitingasali veitingastaða að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  1. Ætíð skal taka mið af hagsmunum gesta.
  2. Auglýsa skal á áberandi hátt á húsnæðinu sjálfu, sem og á vef hlutaðeigandi fyrirtækis, að heimilt sé að koma með hunda og ketti inn á staðinn.
  3. Tryggja skal að hundar og kettir séu einungis í veitingasölum veitingastaðar og ekki þar sem matvæli eru tilreidd, meðhöndluð eða geymd og skal farið að leiðbeiningum Matvælastofnunar um hunda og ketti á veitingastöðum.
  4. Mæting á viðkomandi stað skal vera valfrjáls og fólki ekki gert að sækja sér þangað þjónustu.
  5. Tilkynna skal um nýtingu þessarar heimildar til heilbrigðisnefndar með sannanlegum hætti.
  6. Fylgja skal ítarlegri skilyrðum sem heilbrigðisnefnd getur kveðið á um í starfsleyfi rekstraraðila, m.a. um mat á áhættu.

> Eigendur eða rekstraraðilar veitingastaða sem ekki hafa sérstaklega leyft aðgang hunda og katta er heimilt að vísa frá viðskiptavinum með gæludýr.

> Heilbrigðisnefnd getur, að fenginni beiðni frá hlutaðeigandi rekstraraðila, veitt rekstraraðila leyfi til að heimila aðgang hunda, katta og annarra dýra að tilteknum svæðum, húsnæði eða almenningssamgöngutækjum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Heilbrigðisnefnd skal gefa út skriflegt leyfi þar um, þar sem kveðið er á um gildistíma leyfis og þau skilyrði sem leyfið er háð. Kveða skal á um framangreint í starfsleyfi þar sem við á. Umhverfisstofnun gefur út leiðbeiningar um veitingu leyfis samkvæmt ákvæði þessu og þau lágmarksskilyrði sem heilbrigðisnefnd skal setja fyrir veitingu þess.

> Ákvæði þessara greinar eiga ekki við um heimili fólks, svo sem dvalarheimili eða sambýli. Þar er heimilt að halda gæludýr eftir því sem rekstraraðilar ákveða og í samræmi við ákvæði í samþykktum hlutaeigandi sveitarfélaga.

Ákall um heildarlöggjöf um hundahald

=

Allt of margir opinberir aðilar koma að lögum og reglugerðum um hundahald.

=

Of mörg grá svæði þar sem opinberir aðilar vísa ábyrgð hver á annan.

=

Sveitarfélög fá of mikið sjálfsákvörðunarvald yfir hundaeigendum og kjörnir fulltrúar geta tekið geðþóttaákvarðanir um hunda og hundaeigendur án nokkurs samráðs né kynningar.

=

Of margt er óljóst varðandi réttindi hundaeigenda.

=

Í dag eru reglur um hundahald fyrst og fremst settar fyrir hundaeigendur sem fara ekki eftir reglum um hundahald.

=

97-99% hundaeigenda eru ábyrgir hundaeigendur.